
Almennar upplýsingar
Carnivore – hvað er nú það?
Á carnivore-fæði kemur meginhluti fæðunnar úr dýraríkinu. Oftast er eingöngu dýraafurða neytt en í sumum tilvikum er einstaka plöntum haldið inni í fæðinu t.d. á ákveðnum árstímum. Heiti mataræðisins er tilvísun í flokk þeirra dýrategunda sem neyta nær eingöngu kjöts, þ.e. kjötætur (e. carnivores). Þetta fæði hefur líka verið kallað Zero Carb Diet eða kolvetnalaust fæði. Mataræðið er skilgreint sem Keto-Paleo-fæði en sumir kalla þetta bara Proper Human Diet eða alvöru mannamat.
Carnivore-fæði er ein tegund lágkolvetna-fæðis, líkt og Keto-fæði sem einnig telst til lágkolvetna-fæðis. Á lágkolvetna-fæði er kolvetnum haldið í lágmarki og á carnivore-fæði er nánast engra kolvetna neytt. Sumir geta leyft sér talsvert frelsi á meðan öðrum líður best ef þeir borða aðeins kjöt af jórturdýrum, salt og vatn. Það kallast Lion diet eða ljónafæði.
Carnivore-fæði er líka ein tegund steinaldar-fæðis eða Paleo. Á Paleo er einungis neytt þeirrar fæðu sem talið er að forfeður okkar hafi neytt áður en landbúnaður þróaðist. Kenning carnivore-fæðis er að lengst af þróunarsögu mannsins hafi kjöt verið aðalfæða hans. Ýmsar rannsóknir benda til þess að svo hafi verið. Meltingarfæri manna eru líkust meltingarfærum hunda- og kattardýra, sem eru nær eingöngu kjötætur. Mönnum er, líkt og öðrum kjötætum, ómögulegt að melta trefjar og nýta janframt illa næringarefni úr plöntum.
Sumir efast um að maðurinn geti hafa verið kjötæta, þar sem hann hafi hvorki vígtennur eða klær og því ekki útbúinn til veiða eins og aðrar kjötætur. Það er rétt en maðurinn er þó langhlaupari og getur hlaupið tímunum saman á meðan sprettharðari dýr hafa minna úthald og örmagnast fljótt. Samvinna, smölun o.fl. eru einnig þekktar veiðiaðferðir manna. Með þessum hætti getur maðurinn veitt sér til matar.
En fyrst og fremst byggja fræðin um carnivore-fæði á reynslu þess fólks sem hefur tekið út allar plöntur úr mataræðinu og umbylt heilsu sinni með því. Carnivore-fæði er hið fullkomna útilokunar-mataræði (e. Elimination Diet) sem notað er til að finna út hvaða matur veldur ofnæmi eða óþoli hjá fólki sem glímir við slíkt.
Margir byrja á carnivore-fæði til að léttast en flestir finna fljótt fyrir því að einkenni ýmissa kvilla minnka eða hverfa og samhliða því magnast orkan. Fyrir marga sem hafa átt í baráttu við að hafa stjórn á mataræðinu, veitir carnivore-fæðið langþráð frelsi.
Algengar spurningar
Hvað má borða á carnivore?
Í raun má borða allt sem kemur úr dýraríkinu, s.s. kjöt, fisk, egg og mjólkurvörur, en áhersla þarf að vera á að neyta fituríkra afurða, því fitan er ekki síður mikilvæg en prótínið. Það er síðan val hvers og eins hversu hrein eða mikið unnin matvara er borðuð. Heilsa okkar er mismunandi og því geta sumir þurft að vera á mjög hreinu fæði, meðan aðrir geta leyft sér talsvert frelsi.
Dæmi um mjög hreint fæði er svokallað ljóna-fæði en þá er aðeins kjöt af jórturdýrum, vatn og salt á matseðlinum. Þetta fæði hentar vel þeim sem glíma við erfiða sjálfsofnæmissjúkdóma eða alvarlegt ofnæmi.
Til að byrja með, meðan það er verið að læra inn á hvað hentar að borða, getur verið gott að leyfa sér allt sem kemur úr dýraríkinu, auk þess að nota krydd, edik, sterkar kryddsósur (t.d. tabasco eða aðrar ósætar sterkar sósur), sinnep og sítrónusafa til að bragðbæta. Það er þó mikilvægt að megin uppistaða fæðisins sé kjöt af jórturdýrum.
Hvaða fitu er best að nota?
Fituneysla er afar mikilvæg á carnivore. Hún er sérstaklega mikilvæg fyrir hormónastarfsemina, er talin góð til að halda óæskilegri bakteríuflóru í skefjum og svo gefur hún góða mettunartilfinningu. En það er mjög mikilvægt að borða eingöngu dýrafitu, s.s. alla þá fitu sem er á kjötinu sem er neytt. Smjör er frábær fitugjafi sem flestir þola vel, jafnvel þeir sem eru með mjólkuróþol. Þeir sem ekki þola smjör geta oft borðað ghee eða skýrt smjör, sem einnig er mjög gott. Smjör og ghee henta líka mjög vel til steikinga og gera allan mat betri. Andafita, nautatólg, beikonfita og grísafita eru líka mjög góðar til steikinga. Og ekki má gleyma gömlu góðu hamsatólginni og mörflotinu út á fiskinn.
Hér fjallar Cate Shanahan, MD um fræolíur og af hverju við ættum alls ekki að borða þær.
Og hér ræðir útskýrir dr. Paul Mason hversu slæmar grænmetis- og fræolíur eru fyrir starfsemi líkamans, s.s. tengsl neyslu á þessum olíum og æðakölkunar og aukinni hættu á hjartaáfalli. Einnig um rannsóknir sem sýna fram á hversu góð dýrafita er fyrir heilsuna.
Hversu mikið á að borða af fitu og prótíni?
Á carnivore-fæði er almennt miðað við að hlutfall fitu sé um 50-80% af þeim hitaeiningum sem neytt er. Flestir eru í kringum 60-70% en þeim sem glíma við erfiða kvilla hentar oft betur að hafa hlutfall fitu í hærri kantinum, jafnvel 80% af hitaeiningunum og prótínið er þá 20%.
Almennt er ekki þörf á að reikna hlutfallið út. Það getur verið gott að fylgja bara því sem þig langar mest í, í hvert skipti, sem sagt hlusta á það sem líkaminn kallar á. Suma daga þurfum við meiri fitu og aðra daga meira prótín. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því, s.s. hversu mikið stress var þann dag, líkamlegt erfiði eða annað sem hefur áhrif á næringarþörfina. Hjá konum getur tíðarhringurinn einnig haft áhrif.
Til að átta sig á hvað þessi hlutföll þýða eru hér nokkur dæmi. Hitaeiningar í nautalundum eru um 40% frá fitu og 60% frá prótíni en í ribeye er það um 70% fita og 30% prótín. Hitaeiningar í lambalæri eru um 60% frá fitu og 40% frá prótíni en í súpukjöti er það um 80% fita og 20% prótín. Hitaeiningar í skinnlausri kjúklingabringu eru um 20% frá fitu og 80% frá prótíni, þannig að ein og sér hentar hún mjög illa sem carnivore-fæði. Soðið egg er 60% fita en bara rauðan er um 75% fita.
En fyrir þá sem vilja vera nákvæmir er hægt að skrá matinn í app eins og MyFitnessPal eða nota reiknivélar eins og MyFoodData. Það getur stundum hentað ef væntur árangur lætur á sér standa.
Þarf að borða innmat, svo sem lifur og hjörtu?
Lifur er sérstaklega rík af næringarefnum, hún er einskonar bætiefna-kokteill. Það á líka við um annan innmat eins og hjörtu og nýru. Flest rándýr éta innyflin fyrst þegar þau fella bráð og í mörgum frumbyggjasamfélögum var innmaturinn álitinn dýrmætastur. Það getur því verið snjallt að bæta innmat inn í fæðið, ef þú óttast að þig vanti einhver bætiefni. Því má þó ekki ofgera og sumir borða aldrei innmat en ná þó miklum árangri á carnivore-fæði. Rétt er að hafa í huga að hvert dýr hefur aðeins eina lifur, eitt hjarta og tvö nýru. Meðal manneskja borðar aðeins 1 – 1,5 naut á ári ef hún er á carnivore-fæði. Það gæti því verið skynsamlegt að miða við að borða ekki meira af innmat og samsvarar því sem komið hefði úr 1 – 1,5 nauti.
Mörgum finnst innmatur vondur og langar ekkert að elda hann. Ein leið til að bæta honum inn í fæðið er að hakka hann og blanda saman við kjöthakk. Ágætt er að miða við 100 gr af innmat út í 500 gr af hakki, þá finnst lítið bragð af innmatnum. Það er líka hægt að taka þurrkaðan innmat í hylkjum sem m.a. er framleitt á Íslandi.
Hversu oft á dag á að borða?
Til að byrja með er best að borða svipað oft og áður en byrjað var á þessu fæði eða minnst þrisvar á dag. Flestir upplifa fljótlega minni þörf fyrir að borða oft, carnivore-fæðið gefur betri mettunartilfinningu sem varir jafnframt lengur. Flestir borða eina til þrjár máltíðir á dag, þegar þeir hafa náð góðum tökum á mataræðinu og þá gjarnan bara þegar svengd lætur á sér kræla.
Það er almennt ekki æskilegt að borða jafnoft og jafnmikið alla daga. Þetta á sérstaklega við um konur og þá vilja léttast. Líkaminn getur verið fljótur að stilla sig inn á rútínu og miða starfsemina við það. Ef neysla hitaeininga er alla daga undir dagsþörfinni, getur líkaminn dregið úr starfsemi til að bregðast við litlu fæðuframboði. Hann reynir þá oft að halda fast í fituforðann og dregur jafnframt úr minna nauðsynlegri virkni eins og viðhaldi og endurnýjum húðar og hárs. Fyrir konur getur verið mikilvægt að miða næringuna við það hvar í tíðarhringnum þær eru.
Hentar að nota sætuefni?
Best er að nota engin sætuefni. Öll sætuefni geta valdið því að líkaminn bregðist við eins og um sykur sé að ræða og geta þannig dregið úr væntri heilsubót s.s. hvað varðar bólgur og þyngd. Þau viðhalda gjarnan sykurfíkn og geta leitt þig á hálan ís í fæðuvali. Hægt er að nota vanillu og kanil sem sætu til að byrja með en venjulega hættir löngunin sætan mat eftir einhvern tíma.
Henta mjólkurvörur á carnivore?
Mjólkurvörur eru dýraafurðir og tilheyra því carnivore-fæði. Mjólkurvörur henta þó alls ekki öllum af ýmsum ástæðum.
Mjólkurvörur geta verið bólgumyndandi og geta líka valdið ofnæmi eða óþoli hjá sumum.
Allar mjólkurvörur innihalda eitthvert magn af kolvetnum. Það er mjög auðvelt að innbyrða talsvert magn af mjólkurvörum og þar með kolvetnum. Af þessum sökum er nýmjólk og aðrar magrar mjólkurvörur síður heppilegar. Fyrir þá sem hafa hug á að léttast, getur verið kostur að halda neyslu á mjólkurvörum í algjöru lágmarki því þær virðast gjarnan standa í vegi fyrir fitubrennslu.
Í mjólk eru náttúruleg efni sem örva matarlyst hjá ungviði auk þess að vera róandi og veita þeim vellíðan. Þetta mikilvægur kostur til að koma ungviðinu í gegnum fyrsta vaxtarskeiðið. Hjá fullorðnum einstaklingum virðist þetta gjarnan kveikja fíkn, þannig að það getur verið snjallt að halda sig frá mjólkurvörum.
Af sömu ástæðu geta mjólkurvörur verið nytsamlegar, sérstaklega í byrjun þegar sumir finna fyrir kjöt-klígju og missa jafnvel alla matarlyst. Það er mjög mikilvægt að borða ekki of lítið (sjá fyrra svar við hversu oft á að borða) og þá geta mjólkurvörur hjálpað til við að fá matarlystina til baka og auka þannig neysluna á næringarríkum mat.
Má drekka kaffi?
Kaffi er plöntuafurð og því ekki hluti af carnivore-fæði en margir kjósa að sleppa því ekki. Það getur verið erfitt að hætta að drekka kaffi, bæði er það mjög ávanabindandi og það hefur líka félagslega og menningarlega tengingu. Að hætta að drekka kaffi getur einnig valdið stressi og jafnvel orðið til þess að þú gefist upp á breyttum lífstíl. Það er því ágætt að bíða með að taka á kaffifíkninni, a.m.k. á meðan verið er að ná tökum á fæðinu. Í veislum og boðum er t.d. oft góð lausn að þiggja bara kaffi ef það er erfitt eða leiðinlegt að afþakka allar veitingar.
Gott ráð er að byrja á að breyta kaffineyslunni og minnka hana í áföngum. Kaffi á fastandi maga virðist valda mestri fíkn. Best er að drekka aðeins kaffi sem eftirrétt en við það verður fíknin gjarnan viðráðanlegri. Sumum hentar að minnka kaffineysluna með því að þynna það með sjóðandi vatni.
Má drekka áfengi?
Áfengi er líka plöntuafurð og því alls ekki hluti af carnivore-fæði. Auk þess er áfengi eitur fyrir líkamann og veldur miklu álagi á lifrina sem er afar mikilvægt líffæri fyrir efnaskiptaheilsuna. Áfengisneysla fer því ekki vel saman með carnivore-fæði og heilbrigðum lífstíl.
Engu að síður velja margir að leyfa sér áfengi af og til, meðvitaðir um að það muni hafa neikvæð áhrif árangur af breyttu mataræði.
Margt létt áfengi, s.s. bjór og léttvín, hafa auk áfengisins fjölda plöntuefna sem geta aukið á skaðleg áhrif neyslunnar. Mörgum hentar því frekar að drekka sterkt áfengi og þá í minna magni.
Mikilvægt er að hafa í huga að á ketógenísku mataræði verða áfengisáhrifin mun sterkari.
Er í lagi að fasta á carnivore?
Það er í góðu lagi að fasta á carnivore-fæði en það er ekki nauðsynlegt. Margir finna fyrir því að það verður mjög auðvelt að fasta þegar þeir eru búnir að vera á þessu fæði í nokkurn tíma.
Fyrir þá sem fasta reglulega er mikilvægt að tryggja það að borða nóg í heildina, þannig að þeir fái alla þá næringu sem þarf. Það er mjög algengt að borða of lítið eða hreinlega gleyma að borða á carnivore.
Skýr einkenni þess að þú sért að fasta of mikið er að þér verði verulega kalt og gangi illa að hlýja þér undir sæng. Eins slappleiki og að löngun í mat er orðin óbærileg.
Það ætti aldrei að taka föstuna á hnefanum. Fasta á alltaf að vera þægileg og auðveld. Það er í lagi að finna fyrir smá svengd af og til en aldrei hungri. Hungur er leið líkamans til að kalla eftir meiri næringu. Við ættum alltaf að hlusta á þarfir hans.
Konur þurfa sérstaklega að vera vakandi fyrir merkjum þess að þær séu að fasta of mikið. Hormónastarfsemi þeirra getur verið viðkvæm fyrir of miklum föstum en einnig eru þær oft duglegri við að beita sig hörku til að ná árangri. Sjá einnig svar við því hversu oft á að borða.
Þarf ég að taka C-vítamín til að fá ekki skyrbjúg?
Fólk virðist ekki fá skyrbjúg eða nokkur einkenni C-vítamínskorts þrátt fyrir að neyta aðeins kjöts í fleiri ár eða áratugi. Hér fer dr. Ken Berry heimilislæknir yfir ástæður þess að ekki þarf að taka auka C-vítamín á carnivore. Hann bendir m.a. á að móttaka sykurs og C-vítamíns í frumunum er sú sama. Ef sykurs er neytt fer hann í forgang og C-vítamínið tapast út. Það er ástæðan fyrir því að sumir þurfa jafnvel að taka C-vítamín þrátt fyrir að neyta mikils magns af grænmeti og ávöxtum. Dýraafurðir innihalda örlítið magn C-vítamíns og það fullnægir þó þörfinni.
Hvernig fæ ég nægar trefjar?
Leyfum dr. Ken Berry að svara þessri spurningu hér í þessu myndbandi. Það sem hann kemur inn á er að við þurfum alls engar trefjar og það séu í raun engar rannsóknir sem hafi sýnt fram á nauðsyn þeirra. Upphaflega var sett fram tilgáta um að trefjar væru nauðsynlegar og í framhaldinu hefur verið stuðst við þessa tilgátu við ráðleggingar, eins og um niðurstöðu rannsóknar væri að ræða. Rannsóknir hafa reyndar sýnt fram á að trefjar ýta undir harðlífi og hafa mjög slæm áhrif á vandamál í þörmum eins og IBS og sáraristilbólgu.
Trefjar eru efni úr plöntum (sellulósi) sem við getum ekki melt (sama efni og sag og pappi) og við fáum því enga næringu eða orku úr þeim. Trefjarnar eru mjög erfiðar fyrir meltingarfæri okkar. Bakeríur í þörmunum sjá um að brjóta niður trefjar og við það myndast gas sem veldur gjarnan uppþembu og vindverkjum.
Ken Berry bendir meira að segja á rannsóknir sem sýna fram á að engin tengsl eru milli trefjaneyslu og ristilskrabbameins.
Hægðartregða og uppþemba er afar sjaldgæf meðal þeirra sem eru á carnivore-fæði og flestir þeir sem hafa glímt við meltingarvandamál finna fyrir miklu létti þegar þeir hætta að neyta trefja.
Rannsókn um trefjar og hægðartregðu: Stopping or reducing dietary fiber intake reduces constipation and its associated symptoms – PMC (nih.gov)
Rannsókn um trefjar og ristilkrabbamein: Dietary fibre for the prevention of colorectal adenomas and carcinomas – PubMed (nih.gov)
Rannsókn um trefjar og ristilkrabbamein: Dietary fiber intake and risk of colorectal cancer: a pooled analysis of prospective cohort studies – PubMed (nih.gov)
Hvernig fæ ég næg vítamín og steinefni?
Á sama hátt og ljónin. Þau fylgja lítið opinberum ráðleggingum um að borða fjölbreytt úr öllum fæðuflokkunum og þau taka tæpast bætiefni.
Af einhverjum ástæðum tengjum við vítamínríkt fæði aðallega við grænmeti og ávexti og að kjöt sé bara stykki af prótíni og mettaðri fitu sem gefi okkur aðeins hjartaáfall en engin vítamín eða steinefni.
Ef innihaldið er nánar skoðað, t.d. í þessari reiknivél, þá sést að dýraafurðir eru stútfullar af vítamínum og steinefnum auk þess að innihalda allar gerðir lífsnauðsynlegra prótína. Prótín er nefnilega ekki bara prótín. Ef innmatur eins og lifur, hjörtu og nýru eru skoðuð sést að þau gefa gríðarlegt magn af bætifefnum. Hér er líka umfjöllun um næringargildi matar. Rétt er að hafa í huga að við nýtum líka mun betur næringu úr dýraafurðum en úr plöntum. Sjá einnig svar við spurningu um þörfina á að borða innmat.
Ég tek lyf við ákveðnum kvilla, breytir það einhverju?
Já, hverskonar breytingar mataræði geta haft áhrif á lyfjatöku, s.s. hvað varðar skammtastærðir.
Ef þú tekur lyf að læknisráði, skaltu upplýsa lækninn um að þú hyggir á að breyta mataræðinu og óska eftir hann fylgist með hvort það hafi áhrif og hvort breyta þurfi lyfjagjöfinni.
Allar breytingar á lyfjatöku skulu gerðar í samráði við lækni.
Má nota bætiefni og fæðubótarefni?
Carnivore-fæði er mjög næringarríkt og það virðist ekki vera nein þörf á að taka inn bætiefni því til stuðnings. Undantekning á því kann að vera D-vítamín sem marga skortir, líklega vegna mikillar inniveru óháð mataræði. Inntaka á bætiefnum getur þó verið gagnleg ef um þekktan tiltekinn skort er að ræða. En fjölvítamín-taka er alla jafna óþörf.
Almennt er ekki mælt með fæðubótarefnum á carnivore, enda er oftast um gríðarlega mikið unna vöru að ræða, sem auk þess er alla jafna mjög dýr. Sem dæmi virðist prótín í duftformi hafa mun meiri áhrif á insúlín-viðbrögð en óunnið prótín í kjöti.
Besti kosturinn er því að fá alla næringuna úr mat sem er eins lítið unninn og kostur er.
Hvað er ketó-flensa?
Ketó-flensa er tímabundið ástand sem margir upplifa þegar þeir byrja á lágkolvetna-fæði. Þetta er ekki eiginleg flensa heldur nokkur vanlíðan sem minnir að einhverju leyti á flensu. Þetta getur verið slappleiki, orkuleysi, höfuðverkur og þannig óþægindi. Þetta stafar af því að líkaminn er orðinn svo vanur að fá sykur sem skjótan orkugjafa en það getur tekið nokkra daga að vekja líkamann til að nýta aftur fitu sem orkugjafa, sem hann svo sannarlega kann. Þetta er stutt millibilsástand sem er ekki hættulegt en getur verið óþægilegt.
Önnur ástæða fyrir ketó-flensu er ójafnvægi í rafvökum sem getur fylgt umbreytingu í mataræði. Þegar við hættum að borða kolvetni getur líkaminn losað út mikið af umfram vökva sem hann hefur haldið í. Með því getur mikið af rafvökunum skolast út með þvaginu. Þetta er líka tímabundið ástand en þá getur verið mikilvægt að taka aukalega rafvaka (electrolytes). Á þessum tíma er mikilvægt að passa upp á að spara ekki saltið.
Góð leið til að draga úr einkennum ketó-flensu er að borða mjög vel og aldrei verða svangur þessa fyrstu daga. Kjötsoð og beinasoð eru rík af rafvökum og því getur verið gott að drekka vel af því yfir daginn. Einnig er safi af sýrðu grænmeti gjarnan ríkur af rafvökum, en þá þarf að gæta að því að það sé raunverulega sýrt en ekki edik- og sykurlögur.
Ef þú drekkur kaffi eða orkudrykki, þá eru fyrstu dagarnir ekki rétti tíminn til að hætta á þeim.
Veldur carnivore hárlosi?
Carnivore getur valdið hárlosi, rétt eins og allar aðrar umbyltingar í mataræði sem valda miklu þyngdartapi. Ef við léttumst mjög hratt, sem er ekki óalgengt í byrjun, getur það valdið miklu álagi á líkamann sem bregst við með hárlosi. Það sama á við um mikið stress eða áfall sem líkaminn verður fyrir.
Önnur ástæða fyrir hárlosi getur verið sú að of lítils matar sé neytt. Það er ekki óalgengt að fólk borði of lítið á carnivore, vegna þess að maturinn er mjög mettandi og það geta liðið margir klukkutímar áður en svengdin lætur á sér kræla. Eins er algengt að fólk eigi mjög auðvelt með að fasta á carnivore og ofgeri því.
Ef vart verður við hárlos er mikilvægt að leita leiða til að borða mun meira og hægja á þyngdartapinu. Sérstaklega er mikilvægt að borða nægt prótín og draga úr eða sleppa föstum um tíma.
Er carnivore ekki bara enn einn megrunarkúrinn?
Fyrir einhverja kann carnivore að vera enn einn megrunarkúrinn til að prófa. En carnivore er alls ekki megrunarkúr heldur snýst þetta um að borða þann mat sem við erum sköpuð til að borða og hámarka þannig heilsuna. Þyngdartap fylgir oft bættri heilsu ef um ofþyngd er að ræða en margir sem hafa verið of grannir upplifa það að komast loks upp í kjörþyngd með carnivore-fæði.
Margir byrja á carnivore-fæði til að takast á við ákveðna kvilla, auka orku og úthald eða bæta almenna heilsu. Á carnivore-fæði þarftu ekki að kaupa dýrt duft í dós til að öðlast bætta heilsu.
Svo finnst sumum bara geggjað að geta borðað eins og kóngur alla daga.
Er carnivore ekki bara orthorexia?
Oft er bent á að carnivore-mataræði sé bara ein tegund átröskunar, svokölluð orthorexia. Það kann að vera að fæðið geti talist til orthorexiu en það er þá sama tegund orthorexiu og hrjáir fjölda annarra dýrategunda. Kýrnar eru mjög vandlátar í sínu fæðuvali og skilja t.d. allar sóleyjar eftir í túninu. Letidýrin éta bara lauf af tilteknum trjám og pandabjörninn nærist nær eingöngu á bambus. Koala-birnir eru væntanlega illa haldnir af orthorexiu, því þeir nærast helst bara á laufi Eucalyptus-trjáa. Ekki nóg með það, heldur vilja þeir helst bara lauf af 30 tegundum Eucalyptus-trjáa en í allt eru þær um 600. Getur verið að dýrategundin maður þurfi að einbeita sér að því að borða fjölbreytt úr öllum fæðuflokkum í ákveðnum hlutföllum?
Skilgreining á orthorexiu er að viðkomandi sé svo heltekin af því að borða hollan mat að hann nærist aðeins á fáum fæðutegundum, sem að lokum leiði til vannæringar. Ef næringarinnihald dýraafurða er skoðað, sést vel að hætta á vannæringu á carnivore-fæði er afar lítil.

Sérhver sannleikur fer í gegnum þrjú stig.
Í fyrstu er gert grín að honum, síðan er honum mótmælt harkalega, áður en hann er að lokum viðurkenndur og talinn augljós
Arthur Schopenhauer, heimspekingur
(1788 – 1860)